Sykursætur sigur í Síkinu | Grindavík sendi Hamar niður
Grindavík sendi Hamrana niður í fyrstu deild með sigri í gærkvöldi í Subway-deild karla í körfuknattleik. Grindvíkingar halda áfram að berjast á toppi deildarinnar og eru jafnir Njarðvíkingum að stigum í öðru og þriðja sæti. Njarðvíkingar eiga þó leik til góða en þeir lögðu Íslandsmeistara Tindastóls á útivelli í gær.
Hamar - Grindavík 87:97
Grindvíkingar lögðu línurnar strax í upphafi og leiddu með ellefu stigum eftir fyrsta leikhluta (13:24). Hamarsmönnum tókst að halda í við gestina í öðrum leikhluta og minnkuðu munin í níu stig í hálfleik (37:46).
Í seinni hálfleik héldu Grindvíkingar fengnum hlut og hleyptu heimamönnum aldrei inn í leikinn. Að lokum stóð Grindavík uppi með unnin leik og heldur áfram að blanda sér í toppbaráttuna.
Stigahæstu menn hjá Grindavík voru Deandre Kane með tuttugu stig, Julio De Asisse með sautján, Daniel Mortensen sextán stig, Dedrick Basile fimmtán og Ólafur Ólafsson með fjórtán stig.
Tindastóll - Njarðvík 68:69
Njarðvíkingar lögðu Tindastól í Síkinu á Sauðárkróki í gært. Leikurinn var í járnum allan tímann, lítið skorað en ekkert gefið eftir. Það var svo Dwayne Lautier-Ogunleye sem tryggði Njarðvík sigurinn í lokin.
Fyrsti leikhluti byrjaði fjörlega, heimamenn opnuðu með þristi en Þorvaldur Orri Árnason svaraði í sömu mynt og fylgdu tveir þristar frá Njarðvík í kjölfarið; fyrst frá Mario Matasovic og svo setti Þorvaldur annan. Eftir þessa hasarbyrjun var jafnræði með liðunum og heimamenn leiddu með tveimur stigur eftir fyrsta leikhluta (18:16).
Áfram hélt barningurinn og hvorugu lið tókst að ná yfirhöndinni og í hálfleik voru Njarðvíkingar með eins stig forystu (30:31).
Þriðji leikhluti var eftir sama handriti og þegar sá fjórði fór í gang var staðan jöfn, 51:51.
Síðasti kaflinn var ekki síður spennandi og skiptust liðin á forystunni. Heimamenn komust þremur stigum yfir um miðjan fjórða leikhluta (61:58) og héldu forystunni þar til í blálokin. Þegar þrjár mínútur voru til leiksloka minnkuðu Njarðvíkingar muninn í eitt stig, 66:65. Chaz Williams kom Njarðvík yfir (66:67) þegar 2:22 voru eftir á klukkunni og Lautier-Ogunleye jók muninn í þrjú stig (66:69).
Heimamenn minnkuðu muninn í eitt stig (68:69) þegar 44 sekúndur voru eftir en lengra komust þeir ekki og Njarðvík tók tvö mikilvæg stig með sér í toppbaráttuna.
Dwayne Lautier-Ogunleye, Chaz Williams og Þorvaldur Orri voru stigahæstir Njarðvíkinga. Lautier-Ogunleye með fimmtán stig, Williams með fjórtán og Þorvaldur Orri tólf.